Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Afturmjó internet-tenging

Hér á hótelinu er gestum boðið að kaupa sér aðgang að þráðlausri internet-tengingu og hef ég nýtt mér það þegar ég er að senda bloggfærslur okkar hjónanna til ykkar.

Þessi tenging er hins vegar afar mjóslegin og fellur í yfirlið við minnstu áreynslu. Yfirliðið lýsir sér á þann veg að tengingin dettur út án nokkurs fyrirvara. Ég hef komist að raun um, að það er ekki alveg sama hvar maður er á fyrstu hæðinni til að ná tengingu. Því hleyp ég hér um með vélina og reyni að fanga strauminn sem oftar en ekki er þá horfinn á einhvern annan stað.

Þetta er svosem ágætis hreyfing, enda vekja þessar dansæfingar mínar athygli og áhuga bæði starfsfólks og gesta og ég held að ég gæti átt ágæta möguleika í internetdansi ef sú keppnisgrein yrði viðurkennd á Olympíuleikunum.

En þó manni takist að fanga strauminn er ekki þar með sagt að sendingar gangi snuðrulaust. Það er því alltaf spennuþrungið augnablik þegar færslan leggur í þessa hættulegu ferð yfir Atlantsála. Stundum tekst þetta eftir korter og stundum alls ekki. Ég er hins vegar svo heppinn að eiga góða að í minni deild sem ég get sent færsluna á tölvupósti. Þaðan ratar hún svo á réttan stað.

Vegna þessa gengur þaðan af síður að tengja myndir við bloggfærslur og sendi ég því allar myndir í tölvupósti til míns manns og í framhaldi birtast þær ykkur.

Ég hef nú verið að velta því fyrir mér hvort Norðmenn gætu ekki notað svo sem einn skrilljónasta af olíuauðnum til að fita þessa tengingu. Þar sem ég hef grun um (að vísu órökstuddan) að norskir leyniþjónustumenn lesi allar færslur sem sendar eru úr landi, þá gæti þessi hugmynd mín fengið hljómgrunn á réttum stöðum og þá á ég náttúrlega við hjá norska kónginum sjálfum.

Samtal á milli leyniþjónustumannsins og kóngsins gæti ég hugsað mér að væri eitthvað í þessa veru. Kóngurinn er auðkenndur sem NRK1 og leyniþjónustumaðurinn sem NRK1000.

NRK1000: Góðan daginn herra kóngur. Ég var að lesa bloggið hans Ingvars og þessar hugmyndir hans um að fita þráðlausu tenginguna. Þetta er nú ekki svo galið skal ég segja þér.

NRK1: (Langur geyspi) Já, ég hef nú verið að glugga í þetta líka. En það eru nú erfiðir tímar hjá hirðinni núna. Sonja vill alltaf vera að fá sér nýja siffon-kjóla og ekki batnaði það eftir að Guð fór að taka fjölskyldumyndir vikulega. Hún vill líta vel út, konan. Og svo náttúrlega þessi ferð til Peking. Hún kostaði nú sitt. 14 siffon-kjólar segi ég og skrifa og 50 kíló af skerpu-kjöti til að skera ofan í liðið. Og ekki má gleyma 5 krukkum af tytteberjasósu sem hún vill hafa ofan á brauðið á morgnana. Já þetta er ekki auðvelt. Ég verð að segja það. Ég hef áhyggjur af þessu eins og Steingrímur Hermannson hefði sagt.

NKR1000: Þannig að þetta endar kannski í saltstabbanum hjá þér?

NKR1: (Annar, enn lengri geyspi.) Ég skal heyra ofan í Sonju. Hún er kannski til í að slá af einhverju.

Yeah, right. Eins og það muni einhvern tímann gerast.

Meðan þetta óvissuástan ríkir held ég áfram að stíga Internet menuettinn hér á fyrstu hæðinni gestum og gangandi til gleði og einnig nokkurrar furðu. Margir sakna þess að ég skuli ekki vera með parruk.

En ég er að dansa fyrir rétt málefni. Það skiptir öllu.

Kom við hjá Dísu í morgun. Hún átti góða nótt. Sendi annan pistil síðdegis.

Með kveðju frá skrásetjara sem leyfir sér að slá á léttari strengi nú þegar kýrnar leika við hvurn sinn fingur og lífið brosir við okkur hjónunum.

Frábær gærdagur ásamt nýjustu fréttum í dag

Gærdagurinn rann upp, fagur og bjartur með góðum fyrirheitum. Var kominn til Dísu minnar rétt fyrir hálf tíu. Hjúkrunarfræðingurinn tjáði mér að það yrði allt að vera klár fyrir kl 10, því frú ARNDÍS (með stórum stöfum) ætlaði að horfa á leikinn. Eitthvað dróst nú að klára morgunverkin en kl.  10:20 vorum við mætt í sjónvarpsstofuna og setti konan í brýrnar þegar hún sá markatöluna.

Ég hafði hins vegar ákveðið að fara í messu, enda ýmislegt fyrir að þakka og kvaddi hana í hálfleik.

Að messu lokinni lá síðan leiðin niður í miðborgina, því nú var búið að gera spíon úr skrásetjaranum. Dísa hafði haft áhyggjur af því nýja, norska óperuhúsið gæti með einhverjum hætti skyggt á óperuhúsið "hennar" sem er, eins og allir vita  staðsett í í Kóngsins Kaupmannahöfn. Mér var falið að bera þetta saman og gefa skýrslu.

Ekki reyndist erfitt að finna óperuhúsið því ég datt nánast í fangið á því þegar ég kom út úr sporvagninum. Þetta er mikið og glæsilegt hús, staðsett niður við sjóinn. Það er hægt að ganga upp á þak hússins með því að feta sig upp hliðar þess og þar uppi er glæsilegt úsýni.

Þegar inn er komið fer maður hins vegar að sjá örlitla tengingu við danska óperuhúsið í uppsetningu og viðarklæðningu. Að sjálfsögðu hefur Ólafur Elíasson komið þarna við sögu, en hann hefur sett upp veggi sem lýsa upp með alls konar litbrigðum. Að vísu var erfitt að sjá þetta, þar sem dagurinn var sólríkur. En maðurinn hlýtur að hafa tíu hendur og 50 klukkustundir í sólarhringnum. Og svo er hann náttúrlega listamaður af Guðs náð.

Spíóninn tók fullt af myndum sem ég sýndi Dísu seinna. Eftir að hún hafði skoðað þær féll dómurinn. "Æ, þetta er eitthvað Mettu Marit-legt allt saman". (Þið vitið, prónprinsessan). "En veggurinn hjá Ólafi er í góðu lagi, þó mér finnist nú skreytingarnar í danska húsinu betri". Svo mörg voru þau orð.

Það var ljúfsár tilfinning að ganga upp Karl Jóhann án þess að hafa höndina hennar Dísu í lófanum. Þessa götu þekkti ég mjög vel á árum áður, enda fastagestur í borginni vegna mikilla viðskipta Morgunblaðsins við norsk fyrirtæki í Ósló. Þarna eignaðist ég marga góða vini og enn eru nokkrir þeirra til staðar sem ég hef hitt.

Ég gekk Karl Jóhann á enda og var nú satt að segja að vonast til norski kóngurinn og Sonja litla myndu standa á svölunum og veifa mér. En það sást ekki kjaftur. Borðalagður náungi sagði mér að kóngurinn hefði skellt sér til Peking með frúna sem hefði áhuga á að skoða gullpeningana sem norskir íþróttamenn höfðu fengið.

Þá væri konungsdóttirin heldur ekki til staðar því hún væri alltaf uppnumin af englum á sunnudögum. Mátti ég frá hverfa án þess að hafa tekið í spaðana á kóngaslektinu.

Í gærkvöldi fórum við hjónin í langan göngutúr á núverandi mælikvarða sem tók allt að 10 mínútur. Okkur hefur verið tjáð að Dísa verði flutt yfir á "recovery"-deildina þar sem hún lagðist upphaflega inn. Hún hefur því legið á þrem mismunandi deildum frá því hún var lögð inn, recovery, intensiv og stepdown eins og þeir kalla það Norðmennirnir.

NÝJUSTU FRÉTTIR

Eftir heimsókn til Dísu í morgun óskaði ég eftir viðtali við hjartalækninn hennar sem var auðsótt mál. Þar kom fram að ákvörðun hafði verið tekin fyrr um morguninn um að aðgerðin færi fram n. k. fimmtudag, en þá er talið að hún eigi inni nægilegan kraft. Aðgerðin snýst um að festa vírinn sem enn er laus tryggilega. Hann sagði mér að planið væri að festa vírinn í sempum eða septus, en þá er minnst hættan á eitthvað alvarlegt gerist ef erfiðlega gengur að festa vírinn. Reiknað er með að þessi aðgerð taki eina klukkustund.

Dísa mín er áhuggjufull vegna þessarar aðgerðar og lái henni hver sem vill.  Ég bað Tómas lækni að fara vel yfir það sem ætti að gera og hughreysta hana eftir bestu getu. Hann fullvissaði mig um að hann myndi gera það. 

Ekki er ólíklegt að spítalavistinni ljúki á föstudaginn og Dísa flytji þá yfir á hótelið. Ég sagði Tómasi að við ættum pantað far heim þriðjudaginn 3. september og spurningin hvort ekki væri heppilegt að við héldum kyrru fyrir á hótelinu fram að þeim tíma. Honum leyst vel á það.

Það detta inn tvær myndir seinna í dag. Dísa vill kalla þær fyrstu fílupokamyndirnar, því hún var kvefsin við læknaliðið í morgun. Myndirnar voru teknar í framhaldi. Á annarri myndinni má sjá að henni er ekki skemmt eftir snerruna en hin er tekin þegar hún sagði við mig: "Ég má nú ekki láta svona" og setti upp hunangsblítt bros í framahaldi.

Með kveðju frá skrásetjara.

PS: Dísa er gríðarlega ánægð með drengina okkar. Henni þótti miður að missa af verðlaunaafhendingunni en Norðmenn svissuðu yfir í sína menn þegar leiknum var lokið.

Dulinn kraftur

Öll lendum við í því einhvern tímann á ævinni að lífið tekur á okkur með óblíðum höndum og skyndilega stöndum við frammi fyrir aðstæðum sem krefjast hugrekkis og krafts sem við sjálf hefum ekki látið okkur detta í hug að við byggjum yfir.

Á þessum tímapunkti í lífi mínu er ég að upplifa þessa náð. Að fá hlutdeild í duldum krafti sem ég hefði haldið að ég hefði ekki yfir að ráða.

Ég hef fullvissu um að þessi duldi kraftur kemur m. a. frá ykkur öllum sem þið hafið sent með bænum og sterkum, jákvæðum hugsunum. Ég trúi því að æðri máttarvöld hafi einnig komið hér að, en síðast en ekki síst frá minni yndislegu konu, sem getur, þrátt fyrir erfið veikindi, ljáð mér enn frekari styrk.

Ég nefni þetta vegna þess að ég veit að þið hafið haft áhyggjur af minni líðan og ég get ekkert annað en þakkað ykkur öllum fyrir þá umhyggju.

Ég sjálfur hefði verið áhyggjufullur ef einhver í nánum tengslum við mig hefði staðið í svipuðum sporum og ég er í núna.

Við hjónin höfum eytt saman 46 árum og þau hafa gefið lífi mínu lit og fegurð. Hvergi hefði ég viljað vera á þessum tíma en hjá þessari konu sem ég elska og get nú með einhverjum hætti endurgreitt þá miklu hamingju sem hún hefur fært mér.

Okkur var ætlað að vera saman allt okkar líf og við eigum enn allnokkuð í land að klára þann kvóta.

Á forsíðu bloggsins okkar er lítil mynd af okkur efst vinstra megin. Ef þið smellið á hana fáið þið stærri útgáfu af myndinni. Það hjálpar mér að skoða hana af og til.

Kærar kveðjur,
Ingi

Hetjan mín er afar þreytt

Nóttin reyndist erfiðari en við höfðum vonast til og verkir réðu ríkjum líkt og nóttina á undan. Nú er mér tjáð af hjúkrunarfræðingnum að samsetningu verkjalyfja hafi verið breytt og það eigi að hafa í för með sér betri líðan. Það verður að ganga eftir. Það má ekki ganga á þann litla forða af krafti sem eftir er. Eitthvað þarf hún að eiga inni fyrir aðgerðina á þriðjudag. Sú tímasetning er þó ekki endanlega ákveðin. Skoðun og mat síðdegis á mánudag ræður því. 

Góðu tíðindin eru hins vegar þau að ástand er allt eðlilegt og ekki hefur orðið vart við neinar blæðingar. Búið er að fjarlægja annan legginn úr hálsinum, en þessir leggir eru notaðir til lyfjainnsetningar og ef gefa þarf blóð. Þá hefur einnig verið fækkað innstungum á handarbökum. Einhver vandræði voru með of lágan blóðþrýsting í gær. Úr því var bætt með því að draga úr inntöku háþrýstingslyfja og í gærkvöldi var ekki annað að sjá en að blóðþrýstingurinn væri eðlilegur. Súrefnismettun var of lág, þannig að hún er tengd við kút og fær nú súrefni allan sólarhringinn.

Nú þegar þetta er skrifað er von á sjúkraþjálfara til að hefja léttar æfingar í göngu. Einnig er rétt að geta þess að hjúkrunarfræðingurinn hvatti Dísu eindregið til að láta vita í tíma ef verkir tækju sig upp. Verkurinn má ekki vera of mikill þegar verkjalyfin eru gefin. Þá tekur einfaldlega lengri tíma að koma hlutunum í eðlilegt horf á ný.

Sagt hefur verið að góð heilsa væri kóróna á höfði hins heilbrigða sem aðeins sá sjúki sæi. Rétt er það. Hér er fólk með kórónur, en þó meira af þeim sem misst hafa þær um stundarsakir.  Hins vegar opnast augu þeirra heilbrigðu aðstandenda sem hér eru fyrir þeim mikla mannauði af fólki sem hér er og sér um að koma ættingum þess til heilsu á ný.

Starfsfólkið hér, hvaða störfum sem það gegnir annars, hefur reynst okkur hjónunum ómetaleg stoð í þessum erfiðleikum öllum. Hlýjan og umhyggjan sem við mætum frá degi til dags er ómetanleg.

Já, það er leitt að við almenningur skulum ekki skilja og skynja þessi sannindi fyrr en á bjátar í okkar eigin lífi.

Ég tek ofan hatt og höfuð á hverjum degi fyrir þessu fólki og þakka máttarvöldunum fyrir að hafa þau innan seilingar.

Mér finnst nú að norski kóngurinn ætti að koma hingað daglega og kyssa allt staffið rembingskossi. Mér er reyndar tjáð að það séu fimm stórir spítalar á Osló-svæðinu svo hugsanlega vildu þeir fá hann líka. Þá er bara að grípa til Sonju drottningar. Mér er tjáð að sú kona kunni að kyssa. Allavega tókst henni að krækja í kónginn.

NÝTT LÍF - NÝ VON

Á sjúkrahúshótelinu er marglitur hópur sjúklinga og aðstandenda. Ein hópur stendur þó upp úr en það eru foreldrar og nýfædd börn sem gista hérna í einhverja daga eftir fæðingu. Hvergi hef ég séð á einum stað jafn margar vanfærar konur og nýfædd börn. Í hvert sinn sem ég kem inn í matsalinn sé ég að það er búið að parkera þessu pínulitla fólki út um allt meðan foreldrarnir ná sér í fæðu. Svo er haldið í litlar hendur, kollurinn strokinn og stoltir foreldrar horfa á þau ástaraugum. Það er sannarlega sálarbætandi sjón.

SIGUR ÍSLENDINGA

Sigur "drengjanna okkar" fór ekki fram hjá okkur hér í Noregi og það var ekki erfitt að finna bestu frétt dagsins til að færa Dísu minni. Hún gladdist mikið, enda ein af aðal stuðningsmönnum drengjanna. "Nú hefur verið gaman hjá Ellu" sagði hún þegar ég færði henni fréttirnar. 

Frændur okkar Norðmenn gleðjast einnig með okkur og enduðu fréttatímann í gær að því að hrópa "Heia Island". Yrði ekki hissa þó kóngurinn og Sonja hafi leyft sér þann lúxus líka.

Kveðja frá skrásetjara og hetju allra tíma, minni elskulegu konu.


Nýjar myndir komnar inn

Nú eru komnar fjórar nýjar myndir í albúminu "Noregsferðin" Fyrstu þrjár myndirnar tók ég af Dísu minni í morgun. Eins og þið sjáið er hún vel tengd og hefur þó eitt og annað verið fjarlægt þegar þessar myndir voru teknar.

Síðustu myndina tók svo mín elskulega eiginkona af sínum PR-manni og virðist þokkalega ánægð með hann þrátt fyrir að hún hafi ekki enn séð staf af því sem hann er að pára og hafi ekki hugmynd um hvort kallinn standi undir merkjum.

Vonandi getur hún farið að lesa færslurnar og athugasemdirnar ykkar þegar líða tekur á næstu viku.

Kveðja,

Ingi 

 


Strembinn gærdagur

Dagurinn í gær reynist Dísu minni afar strembinn eins og vænta mátti eftir átök næturinnar. Þegar ég sá hana fyrst eftir hjartauppskurðinn, kl. 4 aðfararnótt fimmtudagsins, alþakta túpum og rafmagnsþráðum og hjúkrunarkonan sýndi sér skurðinn, gerði ég mér fulla grein fyrir því að baráttan framundan yrði erfið.

En þetta var þó sama konan sem sest var í stól síðla sama dags með aðstoð hjúkrunarkonunnar sem var í allnokkurn tíma að færa til alla vírana sem hún var tengd við. Þannig sat hún í hálftíma meðan við spjölluðum saman.

Já, það er ótrúlegt að þrátt fyrir þessa óáran alla getur hún gert smá grín að aðstæðunum. Þegar ég koma til hennar síðdegis sat hún upp við dogg og hjúkrunarkonan var að hagræða henni. "Jæja" sagði hún, "ekki fríkkar maður að framanverðu við þetta" og átti þá við nýjasta örið sem bæst hefur í safnið hennar.

Ég benti herforingjanum kurteisislega á að líkt og aðrar alvöru stríðshetjur bæri hún örin til marks um þær orrustur sem hún hefði háð og haft sigur. Og ég sagði henni af ummælum læknanna sem ég talaði við sem sögðu mér að hún hefði sýnt ótrúlegan styrk og dugnað. Það var reyndar ekki fyrr en í þeim viðræðum sem ég áttaði mig á því hversu alvarleg staðan var þá. Þetta var raunveruleg barátta upp á líf og dauða. Samt fannst henni afleitt að muna ekki eftir andliti skurðlæknisins þegar við hittum hann í gær. "Ég hélt fyrst að það yrði þessi, dökkhærði, myndarlegi, sem myndi framkvæma aðgerðina" sagði hún við mig þegar læknirinn var farinn.

Og talandi um styrk. Hann hef ég fengið frá henni í ríkum mæli undanfarið. Aldrei hefur hún kvartað, sama á hverju gengur. Ekki einu sinni hefur hún minnst á að hún er í hópi 2% sjúklinga sem lenda í því sama og hún lenti í. Ég sagði henni af því eftir viðræður mínar við hennar læknir. Svarið var skorinort "Það er ekki að spyrja að því. Alltaf skal maður koma sér í þann flokk".

Já, þannig seiglst stríðahetjan mín áfram þó hún ráði á stundum ekki nema við eina klukkustund í einu. Algjörlega einbeitt og staðráðin í því að sigra í þessari erfiðu baráttu og koma heim með endurheimta heilsu

Ekkert sérstakt er nú framundan fyrr en á þriðjudaginn. Þá tekur við síðasta aðgerðin þar sem festa á vírana tryggilega og tengja að fullu við gangráðinn. Nú er málið að ná upp þreki fyrir þá aðgerð.

Ykkur öllum þökkum við styrk og bænheitar stundir. Sérstakar þakkir til dætra okkar beggja, en báðar buðust til að koma hingað til Ósló okkur til halds og trausts. Því ásamt öðru verður ekki gleymt.

Í gærkvöldi gerði hér gríðarlegt þrumuveður með slíkum bjarma og hávaða að um er rætt meðal innfæddra. Þá minntist ég smá gríns sem mér er tjáð að sé runnið undan rifjum Svía og er svona:

"Hvers vegna fara Norðmenn í sparifötin og stilla sér upp við gluggana þegar þrumuveður er í Noregi?"

Og svarið liggur í augum uppi:

"Þeir halda að Guð sé að taka fjölskyldumyndir".

Ef þetta er reyndin þá vona ég að norski kóngurinn hafi hengt á sig allar orðurnar og Sonja hafi farið í sætasta siffon-kjólinn í safninu. Því ekki vantaði kraftinn í flassið í gærkvöldi.

Skrásetjari mun svo setja saman saman smá pistil á morgun þar sem vonandi verður ekki annað að lesa en góðar fréttir.

Guð blessi ykkur öll.


Med vindinn i fangid

Elskurnar minar.

Tid erud vaentanlega oll buin ad fretta af erfidleikunum her i Oslo tannig ad eg mun ekki fara yfir ta sogu nuna.

Eg er buinn ad heimsaekja Addy nokkrum sinnum i dag og hun er tokkalega hress. Ad visu mjog treytt, en to tad dugleg ad hun bad um kvedju til ykkar allra.

Tad er fyrirhugud onnur adgerd, n. k. tridjudag, til ad festa virana vid hjartavegginn. Vegna hins alvarlega astands i nott gafst ekki timi til ad framkvaema tad.

Nu bidum vid roleg meda Disa min safnar kroftum fyrir naestu adgerd. Vid aetlum ad sigrast a tessu sameiginlega og hofum med okkur sterkan medbyr fra ykkur ollum.

Held afram ad senda ykkur pistla eftir tvi sem mal troast.

Kaer kvedja, Ingi

PS.: Afsakid tetta hrafnaspark. Tetta er skrifad a tolvu a hotelinu og enn eru Nordmenn ekki bunir at kata upp islensku stafina. Eg a eftir ad raeda tetta vid norska konginn.


Yndisleg tíðindi

Eftir fjögrra klukkutíma, erfiða aðgerð er Dísa mín komin á Recovery á hjartadeildinni. Þar með rættist spáin um að ef erfiðleika bæri að höndum gæti aðgerðin dregist á langinn.

Stóra vandamálið var að tengja vírana við gangráðinn sjálfan og læknirinn sagði henni á eftir að hann hefði ekki lent í því öllu erfiðara. Henni var tjáð að þetta væri að einhverju leiti anotómísk vandamál án þess að það væri skýrt nánar. Líklega verður betri skýring gefin á því í dag eða á morgun.

Hjartagangssérfræðingurinn lét þó hafa eftir sér að þetta hlyti að hafa haft áhrif á líðan hennar undanfarin misseri svo þetta vandamál virðist hafa verið til staðar í einhvern tíma.

Hvað sem því líður  voru þræðirnir þrír fjarlægðir, einn nýr settur í staðinn og sá sem í lagi var hélt sæti sínu. Þetta var framkvæmt með einhvers konar rafmagnsaðferð og Dísa fann greinilega brunalykt meðan á þessu stóð,

Aðgerðin var frmkvæmd með deyfingu en ekki svæfingu eins og Addý hafði verið tjáð af Hirti áður en við lögðum af stað. Þannig að þetta reyndi meira á mína konu fyrir bragðið. Þetta gekk þó að mestu þrautalaust eða þar til farið var að sauma. Þó tók helvíti í.

Í aðgerðinni voru þrjár hjúkrunarkonur, skurðlæknirinn og gangráðssérfræðingur. Þegar vandamálið með tenginguna kom í ljós bættist síðan við einhver óskilgreindur hópur af fólki sem Dísa hafði ekki tök á að fylgjast með. Hvað sem því líður tókst tengingin með ágætum.

Ég sjálfur beið í fjóra og hálfan tíma upp á hótelherbergi og var þá orðinn svo áhyggjufullur að ég gekk yfir á hjartadeildina. En um leið og ég gekk inn á deildina var verið að rúlla Dísu út af skurðstofunni. Þetta var bara eins og í alvöru Hollywoodmynd, nema mínar tilfinningar þegar ég sá hana. Þær voru ekta.

Þegar hún var komin á Recovery tók við vanabundið eftirlit. Svo var spurt hvort Dísa vildi ekki mat, og þegar hún fékk að vita að í boði væru sænskar kjötbollur, sló hún til.

Bætt svo við rabbabaragraut.

Ég tók mynd af henni og ætlaði að láta hana fylgja með. En tölvuflyðran er eitthvað að stríða mér þannig að ekki tókst það. Reyni aftur síðar og athuga þá hvort tengingin verði betri.

Hér í Osló er nú algjört úrhelli enda trúi ég því að guðirnir gráti af gleði með þessa frábæru niðurstöðu. Já, og meðan ég man. Guð blessi norska kónginn og þjóðina alla. Ég er jafnvel viss um að Dísa tekur Mette krónprinsessu í sátt eftir þetta allt. 

Hún hefur verið frekar ólukkuleg eð konungsslektið  hér í Noregi. En að sjálfsögðu eru Norðmenn bara Íslendingar sem tala norsku.

Við hjónakornin biðjum að heilsa og skrásetjarinn mun svo mta aftur innan tíðar með nýja færslu.

En nú er ég á eið til vinar og ástkonu til 46 ára. Og hjörtu okkar beggja slá í takt.

 

 


Komin heilu og höldnu

Ósló tók vel á móti okkur hjónunum þegar við lentum á Gardemoe. Sól og blíða gaf fögur fyrirheit um bjarta daga. Ókum sem leið lá til spítalans og vorum mætt til innskráningar  kl. 2:30 að hérlendum tíma.  Tekið vel á móti okkur og læknirinn sem framkvæma á aðgerðina fór yfir öll mál með Dísu.

Þarna kom að vísu í ljós að þetta var ekki doktor Eyvind (sem við Dísa höfum kallað okkar á milli Fjalla Eyvind) sem okkur hafði verið sagt að myndi framkvæma aðgerðina, heldur annar skurðlæknir.

En hvað um það.

Í framhaldi voru gerðar ýmsar rannsóknir og við stikuðum á milli deilda og fórum um ýmsa ranghala.  Allt gekk þetta eins og í sögu og við vörum komin upp á hótel umm fimmleytið.

Addý á svo að mæta í aðgerð kl. 7:30 á morgun og læknirinn tjáði henni að aðgerðin gæti tekið frá einni klukkustund upp í fjórar, allt eftir því hvernig gengi að greiða úr vírunum. Morgundagurin leiðir í ljós hvernig mau mál munu ganga.

Þetta er gríðarstór komplex hér en sem betur fer er hótelið stutt frá hjartadeildinni svo það er ekki langt að fara á milli.

Frændur okkar Norðmenn hafa tekið afar vel á móti okkur og háir sem lágir fullvissað okkur um að allt muni ganga vel hjá okkur og því trúum við einnig.

Eftir að þessu var öllu lokið fengum við okkur léttan kvöldverð og þá var Dísa mín orðin ansi framlág. Þegar þetta er skrifað er hún komin undir sæng.

Síðan verður vaknað kl. sex í fyrramálið.

Við sendum kveðjur til ykkar allra heima.

Skrásetjari sest svo niður á morgun og skrifar hvernig staðan er á þeim tímapunkti.


Teningunum kastað

Jæja, þá er tengingunum kastað. Boð komin frá Noregi um að aðgerðin fari fram 20. 8. Við leggjum af stað á þriðjudagsmorgun og áætlum að vera komin á spítalann um tvöleytið.

Og allt snýst þetta um að endurheimta heilsu þessarar elsku hér að neðan.  Bið ykkur um að sameinast í góðum óskum okkur til handa þennan dag.

 

(e)(e)(e)SP_A0039

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Addý og Ingi
Addý og Ingi

Hér má finna ýmislegt sem varðar fjölskylduhagi og áhugamál

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Bækur

Bókalistinn

Þetta er bókalistinn minn.


Tónlistarspilari

Pelleperssons kapell - Auktionsvisa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband