Leita í fréttum mbl.is

Hetjan mín er afar þreytt

Nóttin reyndist erfiðari en við höfðum vonast til og verkir réðu ríkjum líkt og nóttina á undan. Nú er mér tjáð af hjúkrunarfræðingnum að samsetningu verkjalyfja hafi verið breytt og það eigi að hafa í för með sér betri líðan. Það verður að ganga eftir. Það má ekki ganga á þann litla forða af krafti sem eftir er. Eitthvað þarf hún að eiga inni fyrir aðgerðina á þriðjudag. Sú tímasetning er þó ekki endanlega ákveðin. Skoðun og mat síðdegis á mánudag ræður því. 

Góðu tíðindin eru hins vegar þau að ástand er allt eðlilegt og ekki hefur orðið vart við neinar blæðingar. Búið er að fjarlægja annan legginn úr hálsinum, en þessir leggir eru notaðir til lyfjainnsetningar og ef gefa þarf blóð. Þá hefur einnig verið fækkað innstungum á handarbökum. Einhver vandræði voru með of lágan blóðþrýsting í gær. Úr því var bætt með því að draga úr inntöku háþrýstingslyfja og í gærkvöldi var ekki annað að sjá en að blóðþrýstingurinn væri eðlilegur. Súrefnismettun var of lág, þannig að hún er tengd við kút og fær nú súrefni allan sólarhringinn.

Nú þegar þetta er skrifað er von á sjúkraþjálfara til að hefja léttar æfingar í göngu. Einnig er rétt að geta þess að hjúkrunarfræðingurinn hvatti Dísu eindregið til að láta vita í tíma ef verkir tækju sig upp. Verkurinn má ekki vera of mikill þegar verkjalyfin eru gefin. Þá tekur einfaldlega lengri tíma að koma hlutunum í eðlilegt horf á ný.

Sagt hefur verið að góð heilsa væri kóróna á höfði hins heilbrigða sem aðeins sá sjúki sæi. Rétt er það. Hér er fólk með kórónur, en þó meira af þeim sem misst hafa þær um stundarsakir.  Hins vegar opnast augu þeirra heilbrigðu aðstandenda sem hér eru fyrir þeim mikla mannauði af fólki sem hér er og sér um að koma ættingum þess til heilsu á ný.

Starfsfólkið hér, hvaða störfum sem það gegnir annars, hefur reynst okkur hjónunum ómetaleg stoð í þessum erfiðleikum öllum. Hlýjan og umhyggjan sem við mætum frá degi til dags er ómetanleg.

Já, það er leitt að við almenningur skulum ekki skilja og skynja þessi sannindi fyrr en á bjátar í okkar eigin lífi.

Ég tek ofan hatt og höfuð á hverjum degi fyrir þessu fólki og þakka máttarvöldunum fyrir að hafa þau innan seilingar.

Mér finnst nú að norski kóngurinn ætti að koma hingað daglega og kyssa allt staffið rembingskossi. Mér er reyndar tjáð að það séu fimm stórir spítalar á Osló-svæðinu svo hugsanlega vildu þeir fá hann líka. Þá er bara að grípa til Sonju drottningar. Mér er tjáð að sú kona kunni að kyssa. Allavega tókst henni að krækja í kónginn.

NÝTT LÍF - NÝ VON

Á sjúkrahúshótelinu er marglitur hópur sjúklinga og aðstandenda. Ein hópur stendur þó upp úr en það eru foreldrar og nýfædd börn sem gista hérna í einhverja daga eftir fæðingu. Hvergi hef ég séð á einum stað jafn margar vanfærar konur og nýfædd börn. Í hvert sinn sem ég kem inn í matsalinn sé ég að það er búið að parkera þessu pínulitla fólki út um allt meðan foreldrarnir ná sér í fæðu. Svo er haldið í litlar hendur, kollurinn strokinn og stoltir foreldrar horfa á þau ástaraugum. Það er sannarlega sálarbætandi sjón.

SIGUR ÍSLENDINGA

Sigur "drengjanna okkar" fór ekki fram hjá okkur hér í Noregi og það var ekki erfitt að finna bestu frétt dagsins til að færa Dísu minni. Hún gladdist mikið, enda ein af aðal stuðningsmönnum drengjanna. "Nú hefur verið gaman hjá Ellu" sagði hún þegar ég færði henni fréttirnar. 

Frændur okkar Norðmenn gleðjast einnig með okkur og enduðu fréttatímann í gær að því að hrópa "Heia Island". Yrði ekki hissa þó kóngurinn og Sonja hafi leyft sér þann lúxus líka.

Kveðja frá skrásetjara og hetju allra tíma, minni elskulegu konu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Halló elsku Addý og Ingi,mikið var gott að fá þennan póst.Vonandi fer að ganga að verkjastilla þig Addý mín þú verður að hvílast vel.

Auður Gná kom til okkar í gærkvöldi eins og þú vissir Ingi minn og næst ætlum við að fá okkur fiskibollur saman,við áttum yndislegt kvöld.

Á morgun verður leikur drengjanna hennar Ellu,reikna með að ég vakni til að fylgjast með í umræðunni Ella á eftir að gefa Addý okkar nákvæmar upplýsingar þegar við hittumst.

Sigurður talar mikið um að fara í bæinn en frúin nennir ekki núna ætli það merki öldrun! nei kannski ekki,ein eftirminnileg "Menningarnótt"nægir mér Ingi þu veist hvað ég er að tala um.

Það byðja allir að heilsa,bless að sinni elskur.

Auda

Auður Ingibjörg (IP-tala skráð) 23.8.2008 kl. 16:38

2 identicon

Hæ elskurnar mínar þarna út í Ósló!
Gott að lesa pistilinn þinn Ingi minn, takk líka fyrir símtalið áðan, það er svo gott að heyra í þér. Vonandi tekst þeim snillingum að verkjastilla hana Addý mína, nóg er nú til af lyfjunum. Vona að næsta nótt verði góð og að hún Addý mín geti sofið vel, hún þarf á öllum sínum kröftum að halda.
Eins og ég sagði einhversstaðar þá verulega saknaði ég hennar Addýar í allri umræðunni um "strákana okkar", en við bara tökum það upp þegar hún kemur hress heim. Ég treysti mér alveg til þess að upplifa þetta allt saman aftur með henni.. Ingi minn, hef svona gaman af "brosköllunum", ég er náttúrulega ekki í lagi.
Hér er rigning og rok, ekki alveg besta veðrið fyrir menningarnóttina eða er það kvöldið eða kannski daginn, guð ég man það ekki. Hef aldrei haft neinn sérstakan áhuga fyrir þessu öngþveyti þarna niður í bæ. . Koss á kinn Addýar frá Gumma Páls.
Smá innskot til Audu, flottur texti, eins gott fyrir þig að fylgjast með í fyrramálið, úr því að ég hef ekki hana Addý.
Verðum í sambandi Ingi minn

Ella The. (IP-tala skráð) 23.8.2008 kl. 17:13

3 identicon

Óstöðvandi!!!!!
Búin að grenja eins og "múkki" í svona klukkustund . Ég veit, ég veit, ekki er ég að ganga í gegnum það sem sem hún Addý er að ganga í gegnum um. Það er þetta með tengingarnar, maður skyldi ekki vanmeta það.
Gummi: Ella mín, leggðu tölvuna frá þér.
Ella: Já, ég ætla að fara að ráða Lesbókarkrossgátuna (Ingi minn, þú ert allsstaðar)
Búin að lauma mér aftur í tölvuna til þess að fá útrás við að skrifa þetta.
Vona að hún Addý mín eigi góða nótt og að allir englar heimsins séu í kringum hana.
Góða nótt elskurnar.
Verð hressari á morgun, lofa því.

Ella The. (IP-tala skráð) 23.8.2008 kl. 22:23

4 identicon

Elsku Ella mín.

Hún systir þín er sest fram á rúmstokkinn er er að horfa á leikinn. Nú bíður hún óreygjufull eftir að hálfleiknum ljúki.  Hjúkrunarfræðingurinn tilkynnti mér þegar ég kom í morgun að það yrði allt að verða klárt fyrir frúna kl. 10 því þá byrjaði leikurinn.

Tengingarnai á milli ykkar systranna eru það sterkar að þær gætu flutt fjöll, já. og hafa reyndar gert það núna.

Kveðja, Ingi 

Ingvar Hjálmarsson (IP-tala skráð) 24.8.2008 kl. 08:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Addý og Ingi
Addý og Ingi

Hér má finna ýmislegt sem varðar fjölskylduhagi og áhugamál

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Bækur

Bókalistinn

Þetta er bókalistinn minn.


Tónlistarspilari

Pelleperssons kapell - Auktionsvisa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband