Leita í fréttum mbl.is

Strembinn gærdagur

Dagurinn í gær reynist Dísu minni afar strembinn eins og vænta mátti eftir átök næturinnar. Þegar ég sá hana fyrst eftir hjartauppskurðinn, kl. 4 aðfararnótt fimmtudagsins, alþakta túpum og rafmagnsþráðum og hjúkrunarkonan sýndi sér skurðinn, gerði ég mér fulla grein fyrir því að baráttan framundan yrði erfið.

En þetta var þó sama konan sem sest var í stól síðla sama dags með aðstoð hjúkrunarkonunnar sem var í allnokkurn tíma að færa til alla vírana sem hún var tengd við. Þannig sat hún í hálftíma meðan við spjölluðum saman.

Já, það er ótrúlegt að þrátt fyrir þessa óáran alla getur hún gert smá grín að aðstæðunum. Þegar ég koma til hennar síðdegis sat hún upp við dogg og hjúkrunarkonan var að hagræða henni. "Jæja" sagði hún, "ekki fríkkar maður að framanverðu við þetta" og átti þá við nýjasta örið sem bæst hefur í safnið hennar.

Ég benti herforingjanum kurteisislega á að líkt og aðrar alvöru stríðshetjur bæri hún örin til marks um þær orrustur sem hún hefði háð og haft sigur. Og ég sagði henni af ummælum læknanna sem ég talaði við sem sögðu mér að hún hefði sýnt ótrúlegan styrk og dugnað. Það var reyndar ekki fyrr en í þeim viðræðum sem ég áttaði mig á því hversu alvarleg staðan var þá. Þetta var raunveruleg barátta upp á líf og dauða. Samt fannst henni afleitt að muna ekki eftir andliti skurðlæknisins þegar við hittum hann í gær. "Ég hélt fyrst að það yrði þessi, dökkhærði, myndarlegi, sem myndi framkvæma aðgerðina" sagði hún við mig þegar læknirinn var farinn.

Og talandi um styrk. Hann hef ég fengið frá henni í ríkum mæli undanfarið. Aldrei hefur hún kvartað, sama á hverju gengur. Ekki einu sinni hefur hún minnst á að hún er í hópi 2% sjúklinga sem lenda í því sama og hún lenti í. Ég sagði henni af því eftir viðræður mínar við hennar læknir. Svarið var skorinort "Það er ekki að spyrja að því. Alltaf skal maður koma sér í þann flokk".

Já, þannig seiglst stríðahetjan mín áfram þó hún ráði á stundum ekki nema við eina klukkustund í einu. Algjörlega einbeitt og staðráðin í því að sigra í þessari erfiðu baráttu og koma heim með endurheimta heilsu

Ekkert sérstakt er nú framundan fyrr en á þriðjudaginn. Þá tekur við síðasta aðgerðin þar sem festa á vírana tryggilega og tengja að fullu við gangráðinn. Nú er málið að ná upp þreki fyrir þá aðgerð.

Ykkur öllum þökkum við styrk og bænheitar stundir. Sérstakar þakkir til dætra okkar beggja, en báðar buðust til að koma hingað til Ósló okkur til halds og trausts. Því ásamt öðru verður ekki gleymt.

Í gærkvöldi gerði hér gríðarlegt þrumuveður með slíkum bjarma og hávaða að um er rætt meðal innfæddra. Þá minntist ég smá gríns sem mér er tjáð að sé runnið undan rifjum Svía og er svona:

"Hvers vegna fara Norðmenn í sparifötin og stilla sér upp við gluggana þegar þrumuveður er í Noregi?"

Og svarið liggur í augum uppi:

"Þeir halda að Guð sé að taka fjölskyldumyndir".

Ef þetta er reyndin þá vona ég að norski kóngurinn hafi hengt á sig allar orðurnar og Sonja hafi farið í sætasta siffon-kjólinn í safninu. Því ekki vantaði kraftinn í flassið í gærkvöldi.

Skrásetjari mun svo setja saman saman smá pistil á morgun þar sem vonandi verður ekki annað að lesa en góðar fréttir.

Guð blessi ykkur öll.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku Addý og Ingi,gott er að lesa pistil þinn Ingi svona strax að morgni þar sem hugur okkar allra er stanslaust til ykkar,mig undrar ekki líðan Addýar minnar eftir þau átök sem hún er búin að lenda í,en húmorinn hefur ekki farið eftir allt.

Kossar til ykkar og áfram skal halda og safna orku og þreki Addý mín fyrir aðgerðina á þriðjudag.

Sigurður biður fyrir kveðju og allir sem að okkur standa.

Auda

Auður Ingibjörg (IP-tala skráð) 22.8.2008 kl. 08:24

2 identicon

Elsku Addý mín og Ingi.  Gott er að fá svona yndislegar fréttir að morgni dags. Ekki kemur mér á óvart dugnaðurinn í þér. Við Gunnsteinn erum með hugann hjá ykkur. Kveðja frá Gunnsteini og góðar óskir að allt haldi áfram að ganga vel. Guð veri með þér Addý mín. Adda.

Adda og Gunnsteinn (IP-tala skráð) 22.8.2008 kl. 09:18

3 identicon

Dásamlegt að fá fréttir af hetjunni.  Hér á vinnustaðnum eru allir með hugann hjá ykkur og þess fullvissir að Addý okkar nái fullum bata.  Styrkur ykkar er mikill og styrkur bæna okkar er mikill..

Kveðja frá Rannsókn,  Lísbet

Lísbet (IP-tala skráð) 22.8.2008 kl. 11:39

4 identicon

Elsku Addý og Ingi

Þú ert algjör hetja elsku mágkona. Guð og gæfan fylgi ykkur. Ég verð ekki nettengd um helgina, en heyri í ykkur á mánudaginn.

Þegar þetta er skrifað eru strákarnir okkar að vinna Spánverja 36:30 og komnir í úrslitaleikinn  á Olympíuleikunum.

1000 kossar og glás af knúsi yfir helgina og gangi ykkur sem allra best.

Ásbjörg

Ásbjörg (IP-tala skráð) 22.8.2008 kl. 14:18

5 identicon

Hæ Addý mín og Ingi!
Elsku Addý mín, kemur mér ekki að óvart umræðan um dugnað og æðruleysi hjá þér í gegnum þessi ótrúlegu erfiðleika sem dunið hafa á þér síðustu sólarhringa. Það er þetta með Lindarbrekkukynið, harkan sex og það sem er ómetanlegt líka er að halda í humorinn. Gerum svo líka allt með "style", þetta með 2%-in.
Við erum stanslaust með hugann við ykkur, vonum að allt haldi áfram í rétta átt, nú er bara að safna kröftum í lokahnykkinn, og þá er vonandi hægt að setja púnkt eftir þennan kafla og að þú komir hress heim.
Og talandi um að vera af Lindarbrekkukyninu með allri þeirri stemningu sem fylgir því að vera af því kyni, þá hefði verið mikið, mikið gaman að  hafa þig hér heima Addý mín til þess að taka umræðuna um "strákana okkar" eftir síðasta leik þeirra.  Sigurvíman sem ríður yfir alla íslendinga núna er ólýsanleg.
Gummi bið að heilsa og ennfremur kveðjur frá Önnu Jónu, Rannveigu, og Þorbjörgu.
Verðum í sambandi.

Ella The. (IP-tala skráð) 22.8.2008 kl. 15:00

6 identicon

Elsku Arndís mín.

Ég vaknaði í morgun með sterka bjartsýnistilfinningu og tengdi það strax við þig. Því ákvað ég að fylla herbergið þitt af bjartsýni og ljósi. Ekkert skildi fá mig til að víkja af þeim vegi í dag og af einbeitni hefi ég haft þá sýn innra með mér.

Ég dáist að styrk þínum, innsæi og kjarki. Sumir eru að rifna af monti yfir landsliði okkar í Kína en ég er rígmontin af þér!

Ingi minn, það eru svo falleg skrif þín að hrein unun er að lesa.

Ragnheiður

.

Ragnheiður Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 22.8.2008 kl. 17:00

7 identicon

Algjörlega sammála henni Ragnheiði, þú ert ótrúlega góður penni, vissi það svosem alltaf.
Kveðja

Ella The. (IP-tala skráð) 22.8.2008 kl. 22:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Addý og Ingi
Addý og Ingi

Hér má finna ýmislegt sem varðar fjölskylduhagi og áhugamál

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Bækur

Bókalistinn

Þetta er bókalistinn minn.


Tónlistarspilari

Pelleperssons kapell - Auktionsvisa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband