Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Komin heim

Ferðin heim í gær gekk eins vel og á varð kosið þó við hefðum haft örlitlar áhyggjur í upphafi. Þegar við komum til Gardemoen beið okkar ungur maður með hjólastól sem ók okkur rakleitt að innskráningarborðinu. Það tók 5 mínútur að klára það og stuttu síðar vorum við komin í betri stofu SAS og þar sátum við í ró og næði þar til tími var til að færa sig að hliði.

Þar var búst við okkur og við vorum fyrst um borð og sest í þægileg sæti skömmu síðar. Flugið gekk afar vel og við lent hér á okkar ástkæra landi um hálf fjögur. Og ekki tók landið illa á móti okkur. Frábært útsýni frá því við flugum yfir það.

Með smá hjálp vorum við svo sest inn í bíl tæplega hálf fimm og komin heim í Hvassaleitið rúmlega fimm.

Þar biðu systur og dóttir og urðu mikilir fagnaðarfundir.

Dísa mín var komin í rúmið rúmlega sjö og þrátt fyrir allnokkra verki upplifði hún slíka sælutilfinningu í hjartanu sínu yfir því að vera komin heim, að það yfirskyggði allt annað. Hún svaf nánast óslitið í 12 tíma og vaknaði ágætlega hress í morgun.

Nú bíður nýtt líf með nýjum ævintýrum sem eru um það bil að bera blóm.

Með kveðju frá skrásetjara og yfirhetjunni.

 


Til stuðningshópsins


Kæru vinir og vandamenn.

Þá er komið að lokum þessarar mjög svo erfiðu, en lærdómsríku dvalar á Ulleval sjúkrahúsinu. Við vinirnir höldum heim á morgun og verðum komin í faðm fjölskyldunnar síðdegis.

Öll þekkið þið til erfiðleikana og óþarfi að fara nánar út í það. Lærdómurinn hvað okkur varðar er þó augljós. Á öllu er hægt að sigrast meðan einhver von er. Dísa mín er hinn stóri sigurvegari í þeirri baráttu.

Og þá er komið að ykkar hlut í málinu.

Ef við hefðum ekki haft ykkur til að styðjast við, þá hefði þessi barátta orðið miklu erfiðari. Öll sú umhyggja, ástúð og vinskapur sem komið hefur fram í aðstoð, símtölum, heimsóknum, athugasemdaskrifum, myndskeiðum, bænum og góðum hugsunum hefur orðið gríðarlegur styrkur fyrir okkur og við fundum sterkt fyrir honum.

Sagt er að íslenskan hafi orð yfir allt sem hægt sé að hugsa. Þó er það nú svo að stundum er orða vant og með engum hætti hægt að tjá sig svo manni finnst að allt sé sagt sem segja þarf.

Þannig líður okkur. Við munum aldrei geta tjáð ykkur nógsamlega okkar tilfinningar í orðum. En við erum alveg róleg vegna þessa. Þið þurfið ekki orð því þið skynjið okkar tilfinningar og geymið innra með ykkur.

Vð Dísa stóðum hér við gluggann í morgun og horfðum í áttina að hjartadeildinni. Bæði vorum við sammála um, að vona til Guðs að við þyrftum aldrei að koma hingað aftur. En í sömu andrá vorum við einnig sammála um að ef eitthvað bjátaði á, vildum við hvergi annars staðar vera. Því hér er að finna úrvalsfólk á borð við ykkur sem unnið hefur kraftaverk á miklum örlagatímum í lífi okkar Dísu. Hafi þau þökk fyrir allt og allt.

Nú hefst endurbyggingarstarf þegar þeim er komið. Dísa má ekki lyfta neinu næstu tvo, þrjá mánuðina, og hún má ekki aka bíl næstu tvo mánuði. Tómas hefur einnig sagt okkur að það taki einhverja mánuði þar til vírinn sé orðinn endanlega fastur.

Já, það stefnir allt í það að stúlkan verði að sitja á strák sínum í einhvern tíma.

Stefnt er á að fara á Reyjalund og sækja þangað krafinn sem upp á vantar til að komast inn í lífið á ný. Það mun allt ganga eftir.

Sjáumst næst heima. Einhverjar færslur verða settar inn eftir heimkomuna þar sem fylgjast má með hvernig málum miðar.

Ástarþakkir og kveðjur,
Addý og Ingi.

PS.: Skrásetjari hefur nú eitthvað verið að hnýta í norska kónginn og hans spúsu, Sonju siffonkjóladrottningu. Jafnvel lagst svo lágt að koma prinsippíunni sjálfri á englasjens. Þetta varð náttúrlega  allt í tómu gríni og ef kóngaslektið hefur eitthvað verið að grína í þetta, bið ég forláts á þessu tilskrifelsi öllu.

Stríðahetjan er hins vegar algjörlega forhert og neitar að draga til baka ummæli sín um Mette Marit. Svo það stendur.


Hugurinn stefnir heim


Nú erum við hjónin farin að veita okkur þann munað að telja niður dagana þar til við förum heim. Allt lofar góðu fyri þá ferð, en gæta þarf sérstaklega að því að Dísa þreytist sem minnst í því ferðalagi öllu. Ég er búinn að gera ráðstafanir um að við fáum hjólastól þegar við komum út á Garemoen, enda byggingin mikil að umfangi.

Sama mun gilda þegar heim verður komið. Þar verður ekið með stæl um gangana.

Dísa svaf vel í nótt, borðaði morgunverð og ætlar nú að fá sér lúr. allt snýst um að gera undirbúninginn undir heimferðina sem þægilegastan. Þó við vitum bæði að þessi dagur verði erfiður, þá er hugsunin að komast heim öllum erfiðleikum yfirsterkari.

Skrásetjari mun nú eitthvað setja inn á morgun áður en þessum annálum líkur endanlega.

Heyrumst frekar á morgun.

Konurnar sem sáu um hana Dísu mína


Af þeim hópi sem kom með einum eða öðrum hætti að sjúkralegu Dísu, eru fjórar konur sem eru sérstaklega minnisstæðar. Myndir af þeim er að finna í albúminu (nýjustu myndirnar) og nú kemur hér smá lýsing frá mér um hverja fyrir sig.

Konan sem er efst, lengst til vinstri heitir Elenita Mable og er lífeindafræðingur. Hún tók á móti okkur strax í upphafi og sýndi af sér mikla góðsemi. Hún gaf sér tíma til að fara á milli deilda til að heimsækja Dísu eftir að hún frétti um erfiðleikana sem upp höfðu komið.

Næst í röðinni er Liv Helga, hjúkrunarfræðingur sem vann á Step down deildinni, en þangað var Dísa flutt eftir stóru aðgerðina. Einstaklega elegant og fín kona sem hugsaði með afbrigðum vel um Dísu. Þegar myndin er tekin var hún reyndar að hætta á deildinni og var að koma til að kveðja. Hún og unnustinn voru að flytja til Bergen, en þar ætlar pilturinn að hefja nám og hún mun vinna sem hjúkrunarfræðingur "og hætta á vöktum"sagði hún brosandi. Mikil heppi að hún skyldi vera til staðar meðan við vorum hér.

Þá er komið að Sygelin, sú sem situr við hliðina á Dísu. Hún er hjúkrunarfræðingur á hjerte / thorax deildinni og hugsaði mjög vel um mína konu. Hláturmild með afbrigðum og átti til að taka danspor af og til.

Og síðast en ekki síst hún Sunneva okkar, skurðhjúkrunarkona, (í grænum fatnaði) sem var með Dísu í báðum aðgerðunum sem tengdist gangráðinum. Þessi kona tók slíku ástfóstri við Dísu að það hálfa hefði verið nóg. Hún tók af okkur loforð að ef við værum einhvern tíma í Osló sem ferðamenn, þá yrðum við að vera í sambandi við hana svo hún gæti boðið okkur heim.

Þessi kona kemur frá Svalbarða og er vön að hafa vindinn í fangið og takast á við óblíðar aðstæður. Hún er það sem Dísa mín kallar "no nonsense" kona og það eru mjög fáir aðilar sem fá þá orðu hjá henni.

Til þessara kvenna sendum við margfaldar kveðjur og þakklæti.

Addý og Ingi

Höfundur

Addý og Ingi
Addý og Ingi

Hér má finna ýmislegt sem varðar fjölskylduhagi og áhugamál

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Bækur

Bókalistinn

Þetta er bókalistinn minn.


Tónlistarspilari

Pelleperssons kapell - Auktionsvisa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband