Leita í fréttum mbl.is

Komin heim

Ferðin heim í gær gekk eins vel og á varð kosið þó við hefðum haft örlitlar áhyggjur í upphafi. Þegar við komum til Gardemoen beið okkar ungur maður með hjólastól sem ók okkur rakleitt að innskráningarborðinu. Það tók 5 mínútur að klára það og stuttu síðar vorum við komin í betri stofu SAS og þar sátum við í ró og næði þar til tími var til að færa sig að hliði.

Þar var búst við okkur og við vorum fyrst um borð og sest í þægileg sæti skömmu síðar. Flugið gekk afar vel og við lent hér á okkar ástkæra landi um hálf fjögur. Og ekki tók landið illa á móti okkur. Frábært útsýni frá því við flugum yfir það.

Með smá hjálp vorum við svo sest inn í bíl tæplega hálf fimm og komin heim í Hvassaleitið rúmlega fimm.

Þar biðu systur og dóttir og urðu mikilir fagnaðarfundir.

Dísa mín var komin í rúmið rúmlega sjö og þrátt fyrir allnokkra verki upplifði hún slíka sælutilfinningu í hjartanu sínu yfir því að vera komin heim, að það yfirskyggði allt annað. Hún svaf nánast óslitið í 12 tíma og vaknaði ágætlega hress í morgun.

Nú bíður nýtt líf með nýjum ævintýrum sem eru um það bil að bera blóm.

Með kveðju frá skrásetjara og yfirhetjunni.

 


Til stuðningshópsins


Kæru vinir og vandamenn.

Þá er komið að lokum þessarar mjög svo erfiðu, en lærdómsríku dvalar á Ulleval sjúkrahúsinu. Við vinirnir höldum heim á morgun og verðum komin í faðm fjölskyldunnar síðdegis.

Öll þekkið þið til erfiðleikana og óþarfi að fara nánar út í það. Lærdómurinn hvað okkur varðar er þó augljós. Á öllu er hægt að sigrast meðan einhver von er. Dísa mín er hinn stóri sigurvegari í þeirri baráttu.

Og þá er komið að ykkar hlut í málinu.

Ef við hefðum ekki haft ykkur til að styðjast við, þá hefði þessi barátta orðið miklu erfiðari. Öll sú umhyggja, ástúð og vinskapur sem komið hefur fram í aðstoð, símtölum, heimsóknum, athugasemdaskrifum, myndskeiðum, bænum og góðum hugsunum hefur orðið gríðarlegur styrkur fyrir okkur og við fundum sterkt fyrir honum.

Sagt er að íslenskan hafi orð yfir allt sem hægt sé að hugsa. Þó er það nú svo að stundum er orða vant og með engum hætti hægt að tjá sig svo manni finnst að allt sé sagt sem segja þarf.

Þannig líður okkur. Við munum aldrei geta tjáð ykkur nógsamlega okkar tilfinningar í orðum. En við erum alveg róleg vegna þessa. Þið þurfið ekki orð því þið skynjið okkar tilfinningar og geymið innra með ykkur.

Vð Dísa stóðum hér við gluggann í morgun og horfðum í áttina að hjartadeildinni. Bæði vorum við sammála um, að vona til Guðs að við þyrftum aldrei að koma hingað aftur. En í sömu andrá vorum við einnig sammála um að ef eitthvað bjátaði á, vildum við hvergi annars staðar vera. Því hér er að finna úrvalsfólk á borð við ykkur sem unnið hefur kraftaverk á miklum örlagatímum í lífi okkar Dísu. Hafi þau þökk fyrir allt og allt.

Nú hefst endurbyggingarstarf þegar þeim er komið. Dísa má ekki lyfta neinu næstu tvo, þrjá mánuðina, og hún má ekki aka bíl næstu tvo mánuði. Tómas hefur einnig sagt okkur að það taki einhverja mánuði þar til vírinn sé orðinn endanlega fastur.

Já, það stefnir allt í það að stúlkan verði að sitja á strák sínum í einhvern tíma.

Stefnt er á að fara á Reyjalund og sækja þangað krafinn sem upp á vantar til að komast inn í lífið á ný. Það mun allt ganga eftir.

Sjáumst næst heima. Einhverjar færslur verða settar inn eftir heimkomuna þar sem fylgjast má með hvernig málum miðar.

Ástarþakkir og kveðjur,
Addý og Ingi.

PS.: Skrásetjari hefur nú eitthvað verið að hnýta í norska kónginn og hans spúsu, Sonju siffonkjóladrottningu. Jafnvel lagst svo lágt að koma prinsippíunni sjálfri á englasjens. Þetta varð náttúrlega  allt í tómu gríni og ef kóngaslektið hefur eitthvað verið að grína í þetta, bið ég forláts á þessu tilskrifelsi öllu.

Stríðahetjan er hins vegar algjörlega forhert og neitar að draga til baka ummæli sín um Mette Marit. Svo það stendur.


Hugurinn stefnir heim


Nú erum við hjónin farin að veita okkur þann munað að telja niður dagana þar til við förum heim. Allt lofar góðu fyri þá ferð, en gæta þarf sérstaklega að því að Dísa þreytist sem minnst í því ferðalagi öllu. Ég er búinn að gera ráðstafanir um að við fáum hjólastól þegar við komum út á Garemoen, enda byggingin mikil að umfangi.

Sama mun gilda þegar heim verður komið. Þar verður ekið með stæl um gangana.

Dísa svaf vel í nótt, borðaði morgunverð og ætlar nú að fá sér lúr. allt snýst um að gera undirbúninginn undir heimferðina sem þægilegastan. Þó við vitum bæði að þessi dagur verði erfiður, þá er hugsunin að komast heim öllum erfiðleikum yfirsterkari.

Skrásetjari mun nú eitthvað setja inn á morgun áður en þessum annálum líkur endanlega.

Heyrumst frekar á morgun.

Konurnar sem sáu um hana Dísu mína


Af þeim hópi sem kom með einum eða öðrum hætti að sjúkralegu Dísu, eru fjórar konur sem eru sérstaklega minnisstæðar. Myndir af þeim er að finna í albúminu (nýjustu myndirnar) og nú kemur hér smá lýsing frá mér um hverja fyrir sig.

Konan sem er efst, lengst til vinstri heitir Elenita Mable og er lífeindafræðingur. Hún tók á móti okkur strax í upphafi og sýndi af sér mikla góðsemi. Hún gaf sér tíma til að fara á milli deilda til að heimsækja Dísu eftir að hún frétti um erfiðleikana sem upp höfðu komið.

Næst í röðinni er Liv Helga, hjúkrunarfræðingur sem vann á Step down deildinni, en þangað var Dísa flutt eftir stóru aðgerðina. Einstaklega elegant og fín kona sem hugsaði með afbrigðum vel um Dísu. Þegar myndin er tekin var hún reyndar að hætta á deildinni og var að koma til að kveðja. Hún og unnustinn voru að flytja til Bergen, en þar ætlar pilturinn að hefja nám og hún mun vinna sem hjúkrunarfræðingur "og hætta á vöktum"sagði hún brosandi. Mikil heppi að hún skyldi vera til staðar meðan við vorum hér.

Þá er komið að Sygelin, sú sem situr við hliðina á Dísu. Hún er hjúkrunarfræðingur á hjerte / thorax deildinni og hugsaði mjög vel um mína konu. Hláturmild með afbrigðum og átti til að taka danspor af og til.

Og síðast en ekki síst hún Sunneva okkar, skurðhjúkrunarkona, (í grænum fatnaði) sem var með Dísu í báðum aðgerðunum sem tengdist gangráðinum. Þessi kona tók slíku ástfóstri við Dísu að það hálfa hefði verið nóg. Hún tók af okkur loforð að ef við værum einhvern tíma í Osló sem ferðamenn, þá yrðum við að vera í sambandi við hana svo hún gæti boðið okkur heim.

Þessi kona kemur frá Svalbarða og er vön að hafa vindinn í fangið og takast á við óblíðar aðstæður. Hún er það sem Dísa mín kallar "no nonsense" kona og það eru mjög fáir aðilar sem fá þá orðu hjá henni.

Til þessara kvenna sendum við margfaldar kveðjur og þakklæti.

Addý og Ingi

Batinn blívur


Við hjónin áttum afskaplega ánægjulegan dag saman í gær og byrjuðum að lesa Innansveitarkroninu Laxness. Upphaflega ætlaði ég að lesa fáeina kafla en þegar upp var staðið vorum við komin inn í hálfa bókina.

Þetta er náttúrlega ótrúleg saga, stíllinn frábær og svo er þetta kraftaverkasaga um kirkjuna að Mosfelli sem stóð af sér allt niðurrif vegna þess að það var alltaf til a. m. k. einn maður sem ekki vildi láta rífa hana. Já, það er gott að lesa um kraftaverk þegar maður sjálfur hefur lifað eitt slíkt.

Nú er hún að kúra og síðan er planið að ganga út á stéttina fyrir utan hótelið á eftir. Hún var örlítið þreyttari í dag en í gær. Breytingarnar á umhverfi hafa tekið sinn toll eins og við mátti búast.

Eins og þið sjáið á myndinni sem ég tók þegar hún borðaði hádegisverð, á er skurðurinn allangur, eða frá hálsi niður á miðjan maga. Súez-skurðurinn verður nú hálfgerð smásmíði eftir að hafa séð þetta.

Óljós von undirritaðs að tekið hefði verið til hendi í konungshöllinni og dregið hefði verið úr siffonkjólakaupum reyndust á sandi byggðar. Ég var tilbúinn með bloggfærslu í gærmorgun en sú afturmjóa gafst upp á að koma henni yfir. Þá var plan B sett í gang sem er tölvupóstleiðin, en ekkert gekk þar heldur. Þá kom í ljós bilun í höfuðstöðvunum upp á Íslandi varðandi póstþjóninn okkar. Það tók lungað úr deginum að kippa því í liðinn og því var færsla gærdagsins óvenju seint á ferðinni.

Ég sendi svo allar myndir á sama tíma. Enn á eftir að skrifa bloggfærslur sem tengja saman allar myndirnar sem sendar voru í gær. Þær skila sér eftir hendinni.

Kveðja,
Ingi

PS.: Sérstakar kveðjur til Önnu Lindu fyrir dans og söng. Lokaatriðið í dansinum var mikilfenglegt.


Sagan af Adonis


Hér er lítil saga sem mig langar til að deila með ykkur.

S. l. miðvikudagskvöld var ég á leið frá Dísu út á hótel. Þegar ég var að fara út úr byggingunni hitti ég ungan mann, ráðvilltan á svip og með fangið fullt af rósum. Hann spurði mig hvort ég vissi hvar fæðingardeildin væri og svo heppilega vildi til að ég gat sagt honum það. Ég hafði orð á því hversu falleg blómin væru sem hann héldi á og hann sagi mér í óspurðum fréttum að konan hans hefði fætt þeim son fyrr um daginn.

Ég óskaði þeim til hamingju og í framhaldi skildu leiðir.

Tveim dögum seinna er ég á leið til Dísu og hvern haldið þið að ég rekist á annan en nýbakaðan föðurinn, ásamt eiginkonu og frænku. Hann þekkti mig strax og brosti feimnislega. Svo ég gekk yfir til þeira og kynnti mig og fékk að skoða sveininn unga. Þá kemur í ljós að það er búið að nefna hann og hann heitir hvorki meira né minna en Adonis, og væntalega nefndur eftir gríska guðinum.

Ég bað þau um að fá að taka mynd af fjölskyldunni því ég myndi líklega ekki upplifa það nema einu sinni á ævinni að fá að hitta Adonis sjálfan. Það var auðsótt. Sú mynd á að vera komin í albúmið.

Ekki veit ég hvaðan forfeður þessa unga fólks hafa komið, en hugsanlega gæti það hafa verið frá Sómalíu. Þar er að finna frítt fólk og þessi þrjú eru einstaklega glæsileg.

Ég þykist viss um að Adonis litli mun vaxa upp og verða fagur og fullgildur Norðmaður. Hann mun verða stoltur af sér og sínum og hafa nákvæmlega sömu möguleika og bleiknefjarnir sem byggt hafa þetta land í þúsund ár.

Ég nefni þetta vegna þess að hér er mikil umræða um innflytjendur meðal Norðmanna og sýnist sitt hverjum. Ég skynja þetta svo að innflytendur aðgreini sig með eftirfarandi hætti. Þeir sem koma til landsins og ætla að verða þarfir þegnar þess. Ég tel að foreldrar Adonis séu í þeim hópi. Þau tala norsku heyrði ég, við mig töluðu þau lítalausa ensku og sín á milli töluðu þau svo mál sem ég skildi ekki. Það að þau tala sitt móðurmál saman ætti að tryggja að Adonis kynnist því landi og þeirri menningu sem hann er kominn frá.

Síðan eru það þeir sem koma hingað, flytjast í aflokuð svæði og eru í litlum tengslum við norskan raunveruleika. Karlarnir læra einhverja norsku en konurnar enga. Erfiðleikarnir byrja svo fyrir alvöru þegar börn þessa fólks byrja skólagöngu sína og kunna enga norsku. Sjálfkrafa lenda þau aftast í röðinni óháð getu og gáfum og komast seint og illa frá þeim vandamálum.

Öll börn eiga að hafa sömu möguleika varðandi leik og þroska. Allir foreldrar eiga að tryggja að svo verði, sé því við komið.

Kveðja,
Ingi


Hamingja á hamingju ofan

Dagurinn í gær var mikill hamingjudagur og skiptist í raun í hamingju 1 og hamingju 2

HAMINGJA 1

Þegar ég kom til Dísu um eftirmiðdaginn í gær sagði hún mér að ákveðið hefði verið að útskrifa hana og hún væri klár að flytjast yfir á hótel. Hún var ánægð með þetta og að sjálfsögðu gilti það sama með mig. Ég stökk því yfir á hótel til að ná í nokkra hluti og kippti með í leiðinni hjólastól til að get ekið drottningunni minni með stæl til baka.

Ég hefði getað sleppt því.

Þegar hún var búin að kveðja alla innvirðulega sagðist hún nú ekki ætla að fara úr deildinni í hjólastól og því varð að samkomulagi að hún gengi fyrsta spölinn. Ekki þarf að orðlengja það að hún gekk alla leiðina og á tímabili var ég farinn að óttast að hún myndi keyra mig út úr byggingunni í hjólastól.

(Síðar í dag munu koma nokkrar myndir, m. a. af rallkappanum Arndísi keyrandi um á fjögurra gata spítthjólastól)

Klukkan sjö fórum við svo niður í matsal og snæddum þar. Eftir það má segja að þrekið hafi færst nær núllpunktinum. Hún var komin snemma í rúmið og svaf vel í nótt. Ég fór og náði í morgunverð fyrir hana sem hún borðaði með bestu lyst. Þegar þetta er skrifað er hún svifin inn í draumalandið.

HAMINGJA 2

er náttúrlega  útgáfa stórmyndarinnar "Dásamlega Dísa" sem mér barst ofan af Íslandi í gær. Ég var að vísu búinn að heyra af því frá leikstjóranum að von væri á myndinni með hraðpósti og beðinn um að snara póstmanninn um leið og hann kæmi í hús. Og allt gekk það eftir. Það var því með miklum spenningi að ég lét diskinn í Makkann. Og sjá. Myndin hófst eins og fyrir galdra.

Ég verð að segja ykkur eins og er að ég varð að breiða handþurrkur yfir lyklaborðið svo það rygðaði ekki því það komu fleiri en eitt tár í augnkrókana þegar ég horfði á myndina.

Þegar Dísa kom svo yfir á hótel var henni boðið í betri sæti og ég var búinn að taka frá handþurrkur fyrir hana. Enda er þetta fjögurra handþurrku mynd í bestu merkingu þess orðs og hún notaði þær allar.

Við hjónin vorum afar ánægð með frammistöðu leikaranna sem hver með sínum hætti túlkuðu þráðinn af snilld. Kjötbolluinnslag Sigurðar minnir mann t.d. á Orson Wells þegar honum tókst best upp.

En okkur finnst þó að þarna hafi ungur og upprennandi leikari unnið mikinn sigur.

Með einhverjum óskiljanlegum hætti tóst henni að túlka í einni setningu allt það sem ég og aðrir hafa verið að reyna að segja. Og gerði þetta án nokkurs hiks.

Þetta er að sjálfsögðu Sara Pálsdóttir, dóttir leikstjórans.

Leikstjóranum sjálfum ber að þakka sérstaklega, því ef hann hefði ekki haft trú á sögunni og handritinu, hefði myndin aldrei verið gerð. Ég hringdi í hann og þakkaði honum munnlega fyrir okkar hönd. Án þess að fara nánar út í það sannar þessi drengur enn og aftur, hvílíkur afburðmaður hann er.

Ykkur öllum sem tóku þátt, óendanlegar þakkir. Að fá þessa gjöf frá ykkur á þessum degi verður ekki til fjár metið.

Kveðja,
Ingi

PS.: Til ykkar sem ekki þekkja þá tók fjölskyldan okkar Arndísar megin sig til og gerði mynd þar sem allir sendu kveðjur, hver með sínum hætti. Þetta náði einnig til vinnufélaga Dísu.  Myndin var sett á disk að framleiðslu lokinni og send til okkar í einum grænum.


Nóttin var til fyrirmynda


Dísa mín svaf ágætlega í nótt og mókti þægilega þegar ég kom til hennar rúmlega hálf tíu. Við fórum svo í göngutúr um gangana eins og við gerum gjarnan meðan við ræðum landsins gagn og nauðsynjar. Við verðum að halda okkur innan ákveðins svæðis svo mælitækin sem fest eru á Dísu geti staðfest hvar hún er þá stundina.

Klukkan tólf átti svo að fara fram skoðun hjartalæknisins og frekari fínstilling á gangráð. Ég heyri betur hvernig það hefur gengið á eftir.

Annars er almennt farin að færast ró í beinin á undirrituðum. Ég vakna að öllu jöfnu um hálf sex leytið og er kominn niður í matsal uppúr kl. sjö. Þar er þá fáa að finna utan vansvefta foreldra með stýrur í augum og barn í vöggu. Litla krílið sýnir foreldrunum þá hugulsemi að láta af kjökrinu og er steinsofnað þegar hér er komið sögu.

Þa er hér einnig af og til hjúkrunarfólk sem er að koma af næturvöktum og ég vil kalla "Hetjur næturinnar" Það er að næra sig áður en það heldur heim á leið.

Nú, þegar ég kom svo upp á herbergi eftir morgunverðinn  sveif á mig slík syfja að ég áhvað að kasta mér smá stund. Munaði litlu að ég yrði af morgunheimsókninni, svo vel entist mér lúrinn.

Eki veit ég hvort leyniþjónustan er búin að lesa bloggið og Sonja í framhaldi sett stopp á siffonkjólakaup. Hvað sem því líður hefur verið óvenju góð færð fyrir bloggfærslur undanfarna tvo daga og þær runnið að mestu ljúflega á milli.

Myndir hef ég sent í tölvupósti og hefur það gengið án vandræða ef myndin hefur verið tekin með símanum mínum. Ef ég reyni hins vegar að senda myndir sömu leið sem hafa verið teknar með myndavél þá byrjar kvikindið að kúgast og gefst svo upp á öllu saman.

Þannig komust ekki tvær myndir til ykkar í gær. Fallega brosið hennar Dísu og stórmeistarinn Tómas. En þriðja myndin hafði það af, enda tekin á síma á sínum tíma. Sú mynd var tekin fyrir einhverjum misserum í Kaupmannahöfn, nánar tiltekið upp við vötnin. Við höfðum farið með Húgó Breka á barnatónleika og þá var Dísa fest á filmu á gleðistund.

Heyrumst síðar.

Kveðja,
Ingi

Frekari fréttir af bata

 
Nú er líða tekur á dag er allt með kyrrum kjörum hjá minni elskulegu konu. Henni líður vel, en viðurkennir að hún verði ekki róleg fyrr en komið er fram á miðjan dag á morgun. Ég er sama sinnis, en veit þó innst inni að stríðið er unnið.

Það var aðdáunarvert að sjá hvernig fólkið sem sá um aðgerðina kvaddi hana. Tómas strauk henni um kinn og hældi henni á hvert reipi. Skurðstofuhjúkrunarkonurnar struku henni og önnur þeirra, sem hefur verið okkur mikil stoð, kvaddi hana með sérstökum hætti eftir að við höfðum ekið henni saman inn á stofuna hennar. Hún tók um báðar hendurnar hennar og sagði við hana að hún væri búin að vera á þessu starfi í 30 ár og alltaf væri hún að læra eitthvað nýtt. Í dag hefði hún lært að sjúklingur getur verið erfiður (í óeiginlegri merkingu) þegar kemur að aðgerð, en á sama tíma sýnt ótrúlegan styrk meðan þau vinna verk sín.

"Ég mun ekki gleyma þér" sagði hún og faðmaði hana.

Ég hitti Tómas síðar um daginn og hann staðfesti að allt hefði gengið vel. Ákveðið hefur verið að hún yrði á spítalanum fram yfir helgi til að allt yrði algjörlega öruggt. Það gladdi Dísu og mig. Ég veit að hún vill hvergi annars staðar vera.

Eftir helgi skýrist svo hvað verður um heimfarardag.

Ég sendi þrjár mynd sem munu birtast eftir að þessi færsla er komin í loftið.

Ein af Dísu minni eftir að búið var að koma henni fyrir á stofunni eftir aðgerðina. Hún lumar á brosi til okkar þó dagurinn hafi verið erfiður.

Síðan mynd af Tómasi, þeim mikla snillingi sem framkvæmdi hjartaaðgerðirnar tvær. Á meðan á hjartaaðgerðinni stóð spurði Dísa:

"Tomas. In a scale of 1 to 10 how difficult is this operation" Og svarið var: "Around 6". Og stuttu seinna sagði hún:

"Thomas, this will be your masterpeace" Og hann svaraði af bragði: "Yes mam". Já einmitt. og þessar umræður voru í gangi á meðan hann var að þræða og festa.

Og síðasta myndin er náttúrlega dásamleg. Þarna er hún ástin mín, algjörlega ómótstæðileg hvenær sem er sólarhringsins.

Dagur er að kvöldi kominn. Eftir heimsóknina á eftir ætla ég að finna mér einhvern notalegan stað, fá mér kvöldverð, glas af víni, hugsa til hennar og ykkar allra og reyna að senda til baka eitthvað af þeim undursamlega vef sem þið hafið ofið í kringum okkur.

Kveðja,
Ingi.




Adgerdin gekk vel

Adgerdin gekk vel, en tok tvo tima i stad eins eins og upphaflega var aaetlad. Teim gekk ver ad festa virinn en reiknad hafdi verid med. En Tomas skurdlaeknir brosti sinu breidasta tegar henni var rullad ut ur skurdstofunni og setti tumalinn upp:

"Everything went well but your wife can be a very difficult lady. But one hell of a fighter"

Skrifa meira tegar eg er buinn ad heyra i Tomasi og hetjunni minni. Hun var agaetlega hress eftir adgerdina, en eg hvarf af vettvangi tar sem hjukrunarfraedingar voru farnir ad gera maelingar og setja upp naeringu i aed.

Kvedja,

Ingi

 

 

 


Næsta síða »

Höfundur

Addý og Ingi
Addý og Ingi

Hér má finna ýmislegt sem varðar fjölskylduhagi og áhugamál

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Bækur

Bókalistinn

Þetta er bókalistinn minn.


Tónlistarspilari

Pelleperssons kapell - Auktionsvisa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband